Umfjöllun um Chateau Guibon 2011 á Vinotek.is

Chateau Guibon 2011 ***1/2

Þrátt fyrir að það séu til óteljandi lítil og frambærileg vínhús í Bordeaux falla þau yfirleitt í skuggann á stóru Grand Cru-húsunum sem tróna yfir ekki bara sveitunga sína heldur flest önnur rauðvín í heiminum. Stóru og frægu vínin eru hins vegar flest hver orðin svívirðilega dýr og því ágætt að muna eftir minni húsunum þegar Bordeaux er annars vegar.

Chateau Guibon er lítið vínhús á Entre-Deux-Mers-svæðinu sem verið hafði í eigu sömu fjölskyldunnar frá því á tímum frönsku byltingarinnar þegar André Lurton festi nýlega kaup á því. Þetta er snoturt og klassískt Bordeaux-vín, auðvitað blanda úr Cabernet Sauvignon og Merlot eins og önnur rauðvín svæðisins. Sólber í nefi, plómur og krydd, súkkulaði og lakkrís, mild eik, meira að segja örlítill sedrusviður. Þétt, vel uppbyggt, ágæt tannín.

2.495 krónur. Góð kaup.