Umfjöllun um Chateau Grossombre de Saint-Joseph 2007 á Víngarðinum

Chateau Grossombre de Saint-Joseph 2007 ****

Chateau Grossombre de Saint-Joseph kemur úr smiðju André Lurton sem er ákveðin ávísun á gæði og það er líka gott að geta verslað vín sem er komið með hæfilegan þroska og ber upprunanum skýrt vitni.

Vínið kemur sumsé frá Bordeaux og blandan er einföld Bordó-blanda: Cabernet Sauvignon og Merlot í nokkuð jöfnum hlutföllum. Það er meðaldjúpt að sjá, fjólurautt og komið með ögn þroskaða litatóna.

Í nefi er það hefðbundið og rétt tæplega meðalopið með glefsur af sólberjum, plómu, ydduðum blýanti, jörð. vanillu og kaffi.

Það er þurrt og vel gert í munni, sýrumikið og ljúffengt í góðu jafnvægi og dæmigert fyrir hefðbundið Bordeaux-vín í einfaldari kanntinum (þó ekki einfaldasta kanntinum). Það má segja að munnurinn sé beint framhald af nefinu og nánast endurtekning á því sem þar finnst: sólber, plóma, létt eik og kaffi. Mér finnst Bordó alltaf vera frábært, get ekkert að því gert og hafið það með lambi og nauti. Önd gæti gengið með því líka.

Verð kr. 2.718. Frábær kaup.