Umfjöllun um Chateau Goumin 2015 á Víngarðinum

Chateau Goumin 2015 ****

Í öllu því flóði af rauðvínum sem skilar sér í hillur vínbúðanna er það útaf fyrir sig merkilegt að héraðið Bordeaux vilji oft gleymast. Kannski ekki skrítið því víngerðarfólk annarsstaðar í Frakklandi, á Spáni, Ítalíu og í Suðurálfum getur oftar en ekki boðið betri vín á betra verði og því verða þau vín oftar fyrir valinu. Ég er nú samt á því að við verðum af og til að kíkja á upprunalega vínstílinn sem menn reyna að líkja eftir útum allar jarðir, því góður Bordó er bara engu líkur og alveg sama hvað menn hamast við að gera kópíur af þeim vínum þá er orgínallinn oftast bestur.

Fyrir tæpum fjórum árum var hérna í Víngarðinum árgangurinn 2011 til skoðunar og fékk þá þrjár og hálfa stjörnu. Árgangurinn 2015 er til muna betri og á fínu verði svo það er full ástæða að prófa hann. Rétt einsog áður er þetta vín blandað til helminga úr Merlot og Cabernet Sauvignon og býr yfir ríflega meðaldjúpum fjólurauðum lit. Það er meðalopið í nefinu og hefur dæmigerða angan af sólberjum, plómu, sultuðum bróm- og krækiberjum, papriku og leirkenndri jörð.

Það er þurrt og meðalbragðmikið með góða sýru og mjúk tannín og þarna má finna, sólber, plómu, krækiber, súkkulaði, og leirkennd steinefni. Verulega glæsilegt rauðvín og einsog alltaf er það jafnvægið sem einkennir góðan Bordeaux, ekki krafturinn. Hafið með rauðu kjöti, sérstaklega lambakjöti og hörðum ostum.

Verð kr. 2.450.- Mjög góð kaup.