Umfjöllun um Capoccia Nero d’Avola 2013 hjá Víngarðinum

Feudo di Santa Tresa Capoccia (Rautt) 2013 ****

Áður hef ég skrifað um hvíta útgáfu með þessu sama nafni en þetta hér er sett saman úr þrúgunum Nero d’Avola og Cabernet Sauvignon og að hluta til eru þrúgurnar þurrkaðar fyrir gerjun, rétt einsog í appassimento-vínum en sem betur fer er það ekki mjög skrælnað þetta vín, og heldur betra en hin hvíta útgafa.

Það hefur ríflega meðaldjúpan, plómurauðan lit og meðalopna, nokkuð dökka, angan þar sem greina má sultuð ber, þurrkaða ávexti, súkkulaðihjúpaðan lakkrís, lím og möndlumassa. Þetta er ilmur sem er í áttina að Amarone en heldur ferskari og rauðari.

Í munni er það ríflega meðalbragðmikið með mjúk tannín en sýran mætti gjarnan vera nokkrum grömmum meiri mín vegna því vínið leysist aðeins upp eftir miðjuna. Það er þó bara lítilsháttar og þarna eru plómur, þurrkaður appelsínubörkur, dökk sultuð ber, þurrkaðir ávextir, lakkrís og kóla. Ekta vín til að gleðja Íslendinga í skammdeginu og hafa með bragðmeiri Miðjarðarhafsmat, rauðu og hægelduðu kjöti og krydduðum mat td frá Norður-Afríku.

Verð kr. 2.495.- Mjög góð kaup.