umfjöllun um Cantine San Marzano Il Pumo Rosso 2012 á Víngarðinum

Cantine San Marzano Il Pumo Rosso 2012 ***1/2

Í febrúar skrifaði ég um Il Pumo Negroamaro (***1/2) frá sama vínsamlagi og þessi Rosso sem blandaður er úr staðbundnum þrúgum héraðsins Salento (eða kannski væri réttara að segja Púglíu því vínið er IGP Salento) er af svipuðum meiði, þótt mér finnist hann heldur nær því að bæta við sig hálfri stjörnu í viðbót. Það kæmi mér ekki á óvart ef vínið væri að stærstum hluta úr Negroamaro og Primitivo, þótt vissulega geti fleiri þrúgur, svona lagalega séð, verið í blöndunni, en það er svosem ekki gefið upp.

Það býr yfir vel þéttum kirsuberjarauðum lit og ríflega meðalopnum ilm sem er sólbakaður og sætkenndur, rétt einsog maður býst við þaðan, neðst á Ítalíuskaganum. Þarna eru kirsu- og hind- og jarðarber, þurrkaðir ávextir, sprittlegnar sveskjur, jörð, kanill, ilmvatn og reykelsi.

Í munni er það meðalbragðmikið, sætkennt og sólþrungið með mjúk tannín og skortir helst sýruna á móti þessum þroskaða ávexti til að halda því lengur á lífi. Þarna má finna jarðar-, hind- og kirsuber, þurrkaða ávexti, lakkrískonfekt, steinefni og krydd. Hafið með hversdagslegri og einfaldari Miðjarðarhafsmat, krydduðum grillmat og pasta. Það er góð hugmynd að henda því í ísskáp í hálftíma áður en það er borið fram til að auka sýruna og gera það ferskara.

Verð kr. 1.999.- Mjög góð kaup.