Umfjöllun um Can Blau 2012 á Víngarðinum.

Can Blau 2012 ****1/2

Héraðið Montsant er fjarri því að vera eins þekkt og Priorat en þau liggja samhliða í fjöllunum inn- og uppaf ströndinni í Katalóníu, sunnanvið Barcelona. Að stærstum hluta er lítill sem enginn munur á þessum vínum nema þá helst verðmunur, því vín frá Priorat seljast að jafnaði á helmingi hærra verði en vín frá Montsant.Þetta vín kemur einmitt frá Montsant, úr smiðju Juan Gil og er sett saman úr þrúgunum Mazuelo, Syrah og Garnacha, ekta Miðjarðarhafsblanda. Það hefur þéttan plómurauðan lit og gegnheilan kannt. Nefið er satt best að segja dásamlega furðulegt og heillandi; rommrúsínur, súkkulaði, sultuð rauð ber, sólberjahlaup, reykelsi, sveskja, rúgbrauð, vanilla, gúmmíbangsar, vindlar, minta og jörð.

Í munni er það bragðmikið, afar sýruríkt, langvarandi og í frábæru jafnvægi. Það er kryddað og flókið einsog í nefinu en með mjúk og gælandi tannín. Þarna eru dökk og rauð ber, pipar, kirsuber, dökkt súkkulaði, sveskja, möndlumassi og lakkrís. Það er þurrt, jarðbundið og framúrskarandi gott með mat. Eitt af því besta sem ég hef bragðað á þessu ári að öðrum ólöstuðum. Svo er miðinn svo flottur líka! Hafið með bragðmiklu, rauðu kjöti og jafnvel bragðmikilli villibráð. Þetta er íhugunarvín einsog þau gerast best.

Verð kr. 3.580.- Frábær kaup.