Telmo Rodriguez Lanzaga 2010 fær frábæra dóma á Vinotek.is

Telmo Rodriguez Lanzaga 2010 *****

Telmo Rodriguez er einn af virtustu og bestu víngerðarmönnum Spánar og oft nefndur í sömu andrá og snillingurinn Alvaro Palacios í Priorat. Rodriguez gerir vín víða um Spán og leitast við að draga fram sérkenni og styrk hvers svæðis fyrir sig og þeirra vínþrúgna sem þar eru ræktaðar. Heimaslóðir hans eru hins vegar í Rioja-héraðinu og þar framleiðir hann vínið Lanzaga og síðan einnig ofurvínið Altos de Lanzaga og einnar ekru vínið Las Beatas.

Þetta er magnað Rioja-vín, með þeim betri sem hér eru í boði og hafa verið í boði og þá ekki einungis vegna þess hve stórkostlegur 2010 árgangurinn er almennt. Svarblátt á lit, angan af mjög dökkum berjum, krækiberjum, kirsuberjum, leður og reykur, kryddað með áberandi og kröftugri eik, sem þó er vel samofin ávextinum, vínið ennþá ungt, mjög kraftmikið. Þetta er vín sem þarfnast umhellingar, og helst geymslu.

3.995 krónur. Frábær kaup. Einhver bestu kaup í rauðvínum þessa stundina.