Telmo Rodriguez Gago 2013 fær mjög góða dóma á Víngarðinum

Gago g 2013 ****1/2

Vínið með þetta sérstæða nafn kemur frá víngerðinni Compañia de Vinos Telmo Rodriguez sem staðsett er innan hins skilgreinda víngerðarsvæðis Toro, norðan og vestan við höfuðborgina Madrid á hásléttu Spánar. Það er einn af þekktustu víngerðarmönnum Spánar, Telmo Rodriguez sem er með fingurna í þessu víni (einsog mörgum öðrum á Spáni) en ég hef áður skrifað um annað vín frá þessari víngerð sem einnig má versla í vínbuðunum og nefnist Dehesa Gago. Það var þá árgangurinn 2014 af Dehesa Gago sem ég tók fyrir á sínum tíma og hann fékk hjá mér fjóra og hálfa stjörnu.

Þetta vín er eingöngu úr hinu staðbundna afbrigði af Tempranillo sem kallast Tinto de Toro og hefur mjög þéttan, kirsuberjarauðan lit. Það er svo rétt ríflega meðalopið í nefinu með angan sem minnir á sólber, sultuðu krækiber, sprittlegin kirsuber, heyrúllur, kaffi, lakkrís, tússpenna, eikartunnur og leirkennda jarðvegstóna.

Það er svo mjög þurrt í munni með áberandi ferska sýru og þétt tannín einsog jafnan er með vínin frá þessu svæði. Það hefur keim af sultuðum krækiberjum, kirsuberjum, þurrkuðum ávöxtum, lakkrís, kaffi, dökku súkkulaði, vanillu og steinefnum. Verulega stórt og mikið rauðvín og sver sig sannarlega í ætt þessara kjarnmiklu rauðvína frá Toro sem tæplega geta talist fínleg en hafa á móti mikið af persónulegum sjarma. Hafið þetta vín með bragðmiklum mat, steikum, pottréttum og grilli.

Verð kr. 3.995.- Mjög góð kaup.