Sirius Rouge 2016 fær mjög góða dóma á Víngarðinum

Sirius 2016 ****

Í hafsjó þeirra vína sem reglulega koma í reynslusölu íslenskra vínbúða er sorglega lítið af nýjum Bordeaux-vínum, sem útaffyrir sig er dálítið merkilegt því ekkert annað svæði í heiminum ber ábyrgð á eins miklu magni af víni og raunin er þar. Maður skyldi því ætla að vín frá þessu fremsta vínræktarsvæði heimsins væru vel sýnileg í vínbúðunum, en sé nánar að gáð þá eru vissulega til nokkur af betri vörumerkjunum og þau auðvitað á svo miklu verði að venjulegur neytandi treystir sér aldrei til að smakka þau.

Reyndar hafa innflytjendur lagt sig í líma við að koma með á markaðinn alveg virkilega vel prísaðar flöskur frá Bordeaux sem verðsins og gæðanna vegna ættu að vera reglulega á borðum áhugafólks, en einhverra hluta vegna hefur þetta gengið hálf illa og kannski er bara smekkur íslensku þjóðarinnar ekki þarna, sem er auðvitað sorglegt því Bordeaux er ekki bara að magni til stærsta víngerðarsvæði heimsins heldur er hvergi annarsstaðar jafnmikið af góðum vínum framleidd á einum bletti og einmitt þar. Ég ætla því að skora á ykkur lesendur að fara og versla eitt gler af þessu Bordeaux-víni og uppgötva hversu fín þessi vín eru.

Sichel-fjölskyldan á sér nokkuð langa sögu í Bordeaux, en frá því 1883 hefur hún verið að versla með vín (er svokallaður „Negotiant“) og hefur að auki keypt nokkrar eignir í Bordeaux sem hún rekur núna með glæsibrag. Þekktustu húsin sem Sichel-fjölskyldan á eru Chateau Palmer og Chateau Angludet í Margaux en að auki á hún fleiri smærri eignir og nú síðast jók hún við eignasafnið nær Miðjarðarhafinu, í Corbiéres. Sirius er auðvitað ekki sjálfstætt vínhús, það er blandað úr þrúgum sem Sichel-fjölskyldan á en komast ekki í úrvalsflokkinn í hverju Chateau-i og þar að auki kaupir hún þrúgur af traustum framleiðendum til að blanda þetta vín sem er alveg verulega gott, sé tekið tillit til verðsins og upprunans. Það er að stærri hluta (60%) Merlot en afgangurinn er Cabernet Sauvignon.

Það hefur rétt ríflega og meðaldjúpa, plómurauða áru og nefið er dæmigert og meðalopið en þar má rekast á plómur, sólber, græna papriku, krækiber, rauð sultuð ber, hangikjöt og vanillu. Það er fínt að láta þetta vín anda stutta stund og við það springur það hraðar út og ávöxturinn eykst til muna. Það er svo rétt ríflega meðalbragðmikið, þurrt með góða sýru, mjúk tannín og ákaflega gott jafnvægi. Ávöxturinn er auðvitað ekki sérlega flókinn, en hann er upprunalegur og aðlaðandi. Þarna má svo finna krækiber, brómber, sólberjahlaup, plómur, græna papriku, tóbak og rykug steinefni. Virkilega auðdrekkanlegt og matarvænt rauðvín sem er frábært með íslensku lambi og öðru rauðu kjöti.

Verð kr. 2.495.- Frábær kaup.