Ser Lapi Chianti Classico Riserva 2013 fær 5 stjörnur hjá Víngarðinum

Ser Lapo Chianti Classico Riserva 2013 *****

Eitt af öruggustu og bestu Chianti-vínum sem eru í boði núna er Fonterutoli og bæði Chianti Classico og Castello di Fonterutoli eru fádæma góð. Og þann flokk fyllir Ser Lapo sem er Riserva útgáfan af Chianti Classico-víninu þeirra.

Vínið er kennt við forföður Mazzei-fjölskyldunnar, Ser Lapo sem fyrstur manna greinir frá Chianti-víni á prenti fyrir rúmum 500 árum og núna á 21. öldinni er familían ennþá að gera frábær vín sem verða bara betri og betri með árunum.

Þetta vín hefur meðaldjúpan kirsuberjarauðan lit og þéttan kannt. Það er ríflega meðalopið og dæmigert í nefinu með þennan einstæða ilm sem einkennir vínin frá Toskana: Þarna eru kirsuberjakonfekt, hindber, leður, plóma, vanilla, súkkulaði, þurrkaður appelsínubörkur, mómold, heybaggi, kaffi og ryk. Framúrskarandi skemmtilegt vín í nefi og það borgar sig að umhella þessu víni.

Í munni er það meðalbragðmikið, þurrt með áberandi sýru og töluvert áberandi þroskuð tannín. Það er matarvænt og bestu eiginleikar þess koma tæpast í ljós fyrr en það hefur verið parað með rétta matnum. Það má finna í því kirsuber, krækiber, brómber, vanillu, súkkulaði, sólber og kaffi. Þeta er eitt af þessum vínum sem ætlar aldrei að enda og hæglega getur maður verið að dreypa á því í nokkra klukkutíma því það tekur sífelldum breytingum. Það endist líka í nokkur ár í kjallaranum fyrir ykkur sem hafið gaman að slíku. Hafið með fínum og einföldum réttum úr rauðu kjöti þar sem bæði vín og matur fá að njóta sín.

Verð kr. 3.650.- Frábær kaup.