Raventos i Blanc “Blanc de Blancs” 2016 fær mjög góða dóma hjá Víngarðinum

Raventos I Blanc Blanc de Blancs 2016 ****+

Raventos er nafn sem allir þeir sem áhuga hafa á Cava-freyðivíni þekkja en þessi fjölskylda lagði grunnin að stórfyrirtækinu Codorníu á nítjándu öldinni. Einn af meðlimum fjölskyldunnar ákvað svo að draga sig útúr fyrirtækinu og seldi Codorníu vínekrur sínar en hélt reyndar eftir þeim bestu. Uppúr því varð til víngerðin Raventos I Blanc og víngerðarmaðurinn Pepe Raventos er jafnan talinn upp þegar frægustu víngerðarmenn Spánar eru dregnir fram.

Þetta er hefðbundið Cava að öðru leiti en því að það er árgangsvín (sem yfir höfuð er ekki) og svo er nánast enginn sykur sett útí vínið svo það er ákaflega þurrt og elegant. Það er blandað úr hefðbundnum Cava-þrúgum og hefur ljósgylltan lit og dæmigerða, meðalopna angan. Þarna eru sítrónur, læm, steinefni, möndlumassi, gul epli og smjördeig sem hefur brunnið örlítið í kantinn. Það er þurrt og glæsilegt einsog áður sagði með töluverða frískandi sýru og afar fínlega búbblur. Þarna má svo finna sítrónu, gul epli, læm, möndlumassa, greipaldin, ristaðar hnetur og sölt steinefni. Verulega flottur Cava, einn af þeim glæsilegustu og bestu sem finna má hérna um þessar mundir og er frábær sem lystauki en gengur líka með léttum forréttum.

Verð kr. 2.995.- Frábær kaup.