Raventos i Blanc “Blanc de Blancs” 2016 fær fimm stjörnu dóm hjá Vinotek.is

Raventos i Blanc "Blanc de Blancs" 2016 *****

Raventos-fjölskyldan hefur verið fyrirferðarmikil í vínrækt Katalóníu allt frá árinu 1497 og þær eru ekki margar víngerðarfjölskyldurnar í heiminum sem geta státað af slíkri, samfelldri sögu. Á nítjándu öld varð fjölskyldan fyrst til að framleiða cava-freyðivín og hún var lengi helsti eigandi vínhússins Codorniu. Josep Maria Raventos i Blanc seldi hins vegar hlut sinn í því fyrirtæki árið 1988 og hóf að framleiða cava undir eigin nafni. Vínhús hans ræktar þrúgur á 46 skikum sem hver og einn hefur sína sérstöðu. Raventos i Blanc leggur mikla áherslu á að vínin endurspegli uppruna sinn og svæði og fyrir nokkrum árum sagði hann skilið við skilgreininguna Cava DO sem flest freyðivínin falla undir og notar í staðinn svæðisskilgreininguna Conca del Riu Anoia, lítið víngerðarsvæði milli ána Anoia og Fox.

Blanc de Blanc er Cava-vín sem getur alveg keppt við mörg kampavín þótt það kosti ekki nema brot af verði kampavíns. Fölgult, þéttur ávöxtur í nefi með sítrus og blóm í fyrrirúmi, margslungið, míneralískt, mjög sýrumikið, þurrt og ferskt.

2.750 krónur. Frábær kaup - eiginlega geggjuð kaup. Getur vel keppt við kampavín.