Planeta La Segreta Rosso 2014 fær mjög góða dóma hjá Víngarðinum

Planeta La Segreta Rosso 2014 ****

Einsog þið vitið þá er ég afar ánægður með að geta nú verslað vínin frá Planeta aftur og þá sérstaklega La Segreta Bianco sem mér finnst svaðalega gott af svo ódýru hvítvíni að vera en hið rauða kemur fast á hæla þess og er einnig virkilega vel gert rauðvín. Það er sett saman úr þrúgunum Nero d’Avola (sem er helmingur blöndunnar), Merlot, Syrah og Cabernet Franc. Auðvitað stórfurðuleg blanda (fyrir alla sem hafa vínnördast undanfarin ár) en meikar einhvernveginn sens þarna á Sikiley.

Það hefur vel þéttan fjólurauðan lit með fínan kannt og rétt ríflega meðalopinn ilm þar sem finna má plómu, sultuð rauð ber, reykelsi, austurlensk krydd, einhver hlaup-nammi, fjólur og grillsósu (þessa frá HP sem mamma keypti alltaf, fæstu hún enn?). Býsna óhefðbundin angan, en Nero d’Avola er líka sérstæð þrúga.

Í munni er það þurrt með góða sýru, fínt jafnvægi og góða endingu. Tannín eru mjúk og það er reglulega matarvænt. Þarna má greina plómu, lakkrís, negul, rauð sultuð ber, kakó og græna stilka. Virkilega gott rauðvín sem er fínt með allskonar mat, þó helst rauðu og ljósu kjöti, pasta, pottréttum og krydduðum réttum.

Verð kr. 2.499.- Frábær kaup.