Planeta Chardonnay 2014 fær fimm stjörnur hjá Víngarðinum

Planeta Chardonnay 2014 *****

Ég veit fyrir víst að þetta vín á sér marga aðdáendur frá fornu fari, enda var þetta vín lengi til sölu hér á árum áður og illu heilli datt það úr sölu á sínum tíma. Það hefur nú snúið aftur og er enn betra en áður, fíngerðara og fágaðra og enn „Búrgúndarlegra“ en það var.

Það er gert á Sikiley og er nú með skilgreininguna DOC Menfi, sem skiptir örugglega flesta litlu máli en segir okkur nördunum að það er gert innan skilgreinds víngerðarsvæðis á suð-vestanverðri Sikiley. Það hefur djúp-gylltan lit og ríflega meðalopinn ilm sem er þéttur og efnismikill. Sem fyrr er eikin áberandi en allsekki í sama mæli og áður og nú er hún líka ekki eins ristuð og áður var, sem hjálpar víninu að halda glæsileikanum allt til enda. Þarna má finna sæta sítrustóna, vanillu, bökuð epli, hunang, mangó, ananas, tússpenna, kókos og hlaupnammi. Virkilega spennandi og margslungin angan.

Í munni er það sýruríkt, þétt, þurrt og langavarandi, mun fínlegra en áður og býsna nálægt þorpinu Puligny í stíl. Það er vel bragðmikið og með keim af sætum sítrusávöxtum, bökuðum eplum, hunangi, reyk, vanillu, steinefnum og austurlenskum ávöxtum. Virkilega góður kostur fyrir þá sem heillast af stórum og finlegum Chardonnay-vínum og svo kostar það bara brot af því sem sambærileg hvítvín frá Búrgúnd kosta. Hafið með bragðmiklum fiskréttum, td humri og feitari fiski, ljósu kjöti, allskonar forréttum og svo er þetta vín sem hægt er að njóta uppá sitt einsdæmi. Berið það allsekki fram of kalt! 10-14°C er mjög fínt hitastig.

Verð kr. 4.480.- Frábær kaup.