Muriel Reserva 2013 fær mjög góða dóma hjá Víngarðinum

Muriel Reserva 2013 ****+

Miðað við hversu mörg, fjölbreytt og frábær vín okkur standa til boða frá Rioja, er eiginlega grátlegt að hugsa til þess hversu rígfastir neytendur eru í sömu vörumerkjunum. Ekki að mest seldu vínin frá Rioja séu eitthvað ómeti, þvert á móti, en mikið væri það nú gaman að neytendur prófuðu fleiri tegundir til að kynnast á eigin skinni að innan Rioja eru nokkrir stílar í gangi, sem eru afar góðir þótt þeir séu ólíkir.

Auðveldast er að skipta Rioja í tvennt eftir nýja og hefðbundna stílnum. Sá hefðbundni snýst um að blanda þremur til fjórum þrúgutegundum saman og þroska vínin lengi í (gömlum) bandarískum eikartunnum svo útkoman er mild, þroskuð og nokkuð flókin. Nýji stíllinn snýst oftar er ekki að nota einungis Tempranillo, tína berin seint og þroska svo í stuttan tíma í nýjum, frönskum eikartunnum. Útkoman er kraftmikil, berjarík og mjög eikuð. Síðarnefndi stíllinn er um þessar mundir nánast alsráðandi og aftur og aftur heyri ég útundan mér að neyendur falla unnvörpum í stafi yfir gegnheila rauða massanum og þykkfljótandi eikinni. Og alltílagi með það. En það er bara svo margt annað í boði.

Svo má að auki skipta rauðvínunum frá Rioja í grófa og fínlega stílinn og þá geta þau vín verið hvort heldur er af nýja eða gamla skólanum og til glöggvunar er það svipaður munur og á Bohemian Rhapsody með Queen og Sound of Silence með Simon og Garfunkel. Bæði góð lög en nokkuð ólík.

Muriel Reserva tilheyrir nefnilega fínlega stílnum í Rioja. Ekki að vínið sé ekki býsna breitt og vítt heldur snúast heildaráhrifin þegar öllu er á botnin hvolft um jafnvægi og fínleika. Þesskonar vín eru gjarnan há í sýru en sætan og eikin allsekki eins framarlega.

Þetta er býsna þétt vín að sjá með lit sem minnir á svört kirsuber og hefur nokkuð opinn og dæmigerðan ilm af bláberjum, sultuðum brómberjum, krækiberjahlaupi, kaffi, kalkríkum jarðvegi, heybagga, sólberjum, plómum, eik og bleki sem minnir á nýprentað dagblað. Þetta er flókinn og heillandi ilmur sem gaman er að velta fram og aftur. Í munni er það svo þurrt og ríflega meðalbragðmikið með töluverða, ferska sýru, afar gott jafnvægi og vel pússuð tannín. Þarna má greina bláber, sultuð brómber, krækiberjahlaup, sólber, kaffi, steinefni, þurrkaða ávexti, plómur og blek. Þótt ég hafi ekki fjallað um Reservuna 2012 í Víngarðinum á sínum tíma, þá var það vín framúrskarandi gott og fékk fjórar og hálfa stjörnu hjá mér, svona prívat. Árgangurinn 2013 er ekki alveg eins fókuseraður og það er helst greinanlegt eftir miðjuna, en þá raknar þessi árgangur aðeins of fljótt upp. Engu að síður verulega gott og fínlegt vín sem er fínt með rauðu kjöti með ekki of flóknu meðlæti.

Verð kr. 2.850.- Frábær kaup.