Massolino Langhe Nebbiolo 2012 fær frábæra dóma á Vinotek.is

Massolino Nebbiolo 2012 ****1/2

Nebbiolo er þrúga sem að ætti að flokka með stóru heimsþekktu þrúgunum. Hún líður hins vegar fyrir að ferðast ekkert afskaplega vel, það er að segja það hefur ekkert gengið afskaplega vel að fá hana til að blómstra annars staðar en í heimahéraðinu Langhe í Piemont í norðausturhorni Ítalíu. Þar er hún hins vegar í essinu sínu og þaðan koma einhver bestu rauðvín Ítalíu og heimsins, stóru Barolo og Barbaresco-vínin. Þetta flotta vín frá Massolino er eins konar örlítið smækkuð útgáfa af Barolo.

Fínlegur rauður rifsberjaávöxtur, blóm, rósir, lyng, kryddað, lakkrís/anís. Í munni mikill undirliggjandi kraftur, það ræðst ekki á mann heldur faðmar mann þéttingsfast, kryddað, fínlegt og fágað, þarf tíma og krefst absólút umhellingar. Með t.d. íslenskri villibráð eða lambi, nauti Wellington þar sem það dansar með sveppunum. Mun þroskast vel næstu 5-10 árin.

3.995 krónur. Frábær kaup.  4,5 Stjörnur.