M. Chapoutier Les Meysonniers Crozes Hermitage 2016 fær fimm stjörnur hjá Víngarðinum

M. Chapoutier Les Meysonniers Crozes Hermitage 2016 *****

Það er þakklátt hlutskipti að fá núna í hendurnar öll þessi stóru vín að dæma áður en jólahátíðin brestur á. Og þau eru fleiri en tvö og þrjú sem að mínum dómi verða að kallast framúrskarandi og fá fullt hús stiga (fyrir utan öll góðu vínin sem ég fæ engin sýnishorn af og þið verðið bara að prófa sjálf). Eitt þessara vína er nýjasti árgangur af Crozes Hermitage-víninu frá Michel Chapoutier og þótt Crozes Hermitage teljist sjaldan vera í sömu deild og sjálf Hermitage-vínin þá hefur víngerðarfólkinu hjá Chapoutier einhvernvegin tekist að búa til nánast fullkomið rauðvín sem getur vel keppt við marga af þeim sem eru að framleiða Hermitage. Ég fullyrði að minnsta kosti að þau Hermitage-vín sem ég byrjaði að smakka fyrir rúmum 30 árum voru ekki svona góð, þótt ég efist ekki um að menn geri allmennt betur öll vín, nú á dögum.

Crozes Hermitage er skilgreint víngerðarsvæði í kringum sjálfa Hermitage-hæðina við þorpið Tain, sem rís tignarlega við fljótið Rhône og undir allri hæðinni er gegnheilt granínt sem gefur vínunum þessa sérstöku byggingu. Sjálf Hermitage-hæðin er í raun agnarsmá og hefur brattar suðurhlíðar þar sem nokkrir vínræktendur eiga mis-stóra skika og verða að sinna vínviðnum í manndrápshalla svo nánast öll vélræn aðstoð er útilokuð. Enda eru Hermitage-vín dýr í framleiðslu. Norðan, austan og sunnan við Hermitage-hæðina er svo nokkuð stærra svæði sem kallast Crozes Hermitage og þar eru ekrur misgóðar og skiptir þá miklu máli að kaupa þrúgur af bestu ræktendunum eða eiga sjálfur góðar ekrur með réttum jarðvegi og réttri afstöðu til sólar. Ekki spillir svo að Chapoutier gerir nánast öll sín vín á lífrænan hátt og það hefur síður en svo dregið úr gæðum þeirra undanfarna árganga.

Þetta vín býr yfir þéttum, plómurauðum lit og hefur meðalopna, nokkuð sveitalega angan þar sem finna má jarðarber, hindber, pipar, sultuð krækiber, austurlensk krydd einsog negul og kanil, dökkt súkkulaði, steinefni, beiskar möndlur og, einsog títt er um vín frá Norður-Rhône (og mörgum þykir ekki smekkleg lýsing), nýja mykju. Þetta er dæmigerð ung og upprunaleg angan og það er ekki hefð í Hermitage að nota mikið af nýjum eikartunnum til að þroska vínið, heldur eru notaðar stærri ámur eða eldri tunnur og því verður eikarilmurinn aldrei jafn megn og td í stórum Bordeaux-vínum eða þykkum, spænskum rauðvínum.

Það er svo ríflega meðalbragðmikið í munni, mjög þétt, þurrt og langvarandi með góða sýru og afar vandaða tanníngrind sem heldur utan um þennan mikla og fínlega ávöxt. Þarna má finna krækiber, hindber, kirsuber í spritti, pipar, kúmen, dökkt súkkulaði, tóbak og heilmikið af steinefnum, allt ofið saman í magnaða heild. Glæsilegt rauðvín, ekta Syrah frá Norður-Rhône og einsog skapað fyrir villibráðina á jólunum.

Verð kr. 3.395.- Frábær kaup.