M. Chapoutier Bila Haut Occultum Lapidem 2014 fær fimm stjörnur hjá Víngarðinum

M. Chapoutier Bila Haut Occultum Lapidem 2014 *****

Það er óhætt að ganga að gæðunum vísum hjá Michel Chapoutier og hans besta ekra í Languedoc er án efa Bila Haut sem er skilgreind sem Cotes du Roussillon Village.  Þar eru að jafnaði gerð 6 mismunandi vín og er Bila Haut Occultum Lapidem (Viskusteinninn) eitt af þeim bestu.  Aðeins sérútgáfurnar Crysopée, v.i.t. og r.i. standa ofar í röðinni, en af þeim vínum er reyndar gert afar lítið magn.

Occultum Lapidem er blandað úr þrúgunum Syrah, Grenache og Carignan og hefur gegnheilan og dimman, kirsuberjarauðan lit.  Það er ríflega meðalopið í nefinu með flókna og kryddaða angan af hind- og jarðaberjum, bláberjasultu, austurlesnkum kryddum, reykelsi, bananastöng, tímjan, rósmaríni, pipar og utan um þetta er svo silkimjúk eikarangan.

Í munni er það kröftugt, þurrt og sýruríkt með mjúk og mikil tannín og það hefur langa og feita endingu.  Þarna  eru rauð ber, dökk sultuð ber, kryddjurtir, pipar og eik.  Ferlega flott og margslungið vín frá Suður-Frakklandi.  Alls ekki eins sætt og mörg önnur vín frá sama svæði og fínlegra en maður á von á.  Athugið að það eru tveir árgangar í gangi núna í Vínbúðinni og ekki er ólíklegt að 2015 sé auðfundnari.  Vonandi kemur dómur um hann fljótlega.  Eins má benda á vel heppnaða gjafaöskju með þessu víni og Norður Rónanum Les Meysonniers Crozes-Hermitage sem er á fínu verði (kr. 7.950.-).  Hafið þetta vín með kröftugum steikum, grillmat og bragðmikilli villibráð.

Verð kr. 3.595.- Frábær kaup.