Louis Jadot Couvent des Jacobins Bourgogne Pinot Noir 2018 fær mjög góða dóma á Víngarðinum

Louis Jadot Couvent des Jacobins Bourgogne Pinot Noir 2018 ****+

Ég hef minnst á það oftar en einu sinni að árgangurinn 2018 í Búrgúnd virðist ætla að verða einn sá besti í röð margra afar frambærilegra árganga. Bæði á þetta á við um rauðu og hvítu vínin og gildir jafnt um dýrari sem ódýrari vín. Sem eru auðvitað afar góðar fréttir fyrir neytendur því verðlagningin á Búrgúndarvínum er yfirhöfuð dýr, svo að þegar ódýrustu vínin sem okkur standa til boða eru góð, þá er full ástæða til að gleðjast.

Flestir ættu að vita að víngerðin Louis Jadot er stórveldi í Búrgúnd og afar mikið af flöskum sem koma úr smiðju þeirra á hverju ári. Couvent des Jacobins er eitt af nokkrum rauðvínum frá Jadot sem hafa skilgreininguna Bourgogne Pinot Noir en önnur eru td Les Petits Pierres, Les Pierres Rouge og svo bara óbreyttur Pinot Noir (og eru ekki til sölu hér), en til að fólk átti sig á fjölbreytninni sem frá Jadot kemur, þá eru til að mynda talin upp nokkur hundruð mismunandi vín frá þeim á vín-appinu Vivino og auðvitað hellingur af árgöngum.

Þetta vín býr yfir ekta Pinot Noir lit, kirsuberjarauðum og tæplega meðaldjúpum. Það hefur einnig dæmigerðan Pinot Noir-ilm þar sem finna má jarðarber og villijarðarber, kirsuber, lakkrís, þurrkaða ávexti, rykug steinefni og austurlensk krydd. Það er svo meðalbragðmikið með ferska sýru og góða endingu. Þessi árgangur er þéttari og lengri en td 2017 og í munni eru dökku berin heldur meira áberandi en í nefinu. Þarna eru svo jarðarber, kirsuber, hindber, brómber, lakkrís, þurrkaðir ávextir, leirkennd steinefni, austurlensk krydd og það endar með snert af fjallagrasamjólk. Virkilega góður árgangur sem er fínn núna og getur vel geymst næstu þrjú árin. Hinsvegar eiga stærri og dýrari vínin eftir að endast áratug eða lengur í viðbót ef þið komist yfir þau. Hafið það með allskonar bragðmeiri forréttum, kæfum, ljósu fuglakjöti og feitum fiski.

Verð kr. 3.695.- Mjög góð kaup.