Louis Jadot Couvent des Jacobins Bourgogne Pinot Noir 2017 fær góða dóma á Víngarðinum

Louis Jadot Couvent des Jacobins Bourgogne Pinot Noir 2017 ****

Það eru liðnir einir fimm árgangar frá því ég fékk þetta vín síðast inn á borð Víngarðsins til smökkunar. Sem er auðvitað stórmerkilegt, því ég hefði getað svarið fyrir að það hefði verið í fyrra frekar en í hitteðfyrra og segir manni að tíminn virðist fljúga frá manni á einhverjum óútskýrðum hraða. En árgangurinn 2012 fékk sömu einkunn hjá mér á sínum tíma (fjórar stjörnur) þótt mér þyki þessi árgangur kannski tveimur punktum síðri, amk um þessar mundir, en þess verður að sjálfsögðu að geta að þessi vín geta lifað og breyst á löngum tíma og oft til batnaðar.

Louis Jadot er auðvitað eitt stærsta og besta vínhús í Búrgúnd og bæði á það margar spildur sem það gerir vín úr, en einnig er keypt mikið af þrúgum (frá öðrum bændum) á þeim bæ, sem brúkuð eru í ódýrari vínin er frá þeim koma. Í heild sinni hefur mér fundist að þessi ódýrari vín frá Jadot vera nokkuð góð og þá frekar hvítu vínin en þau rauðu, en inná milli hef ég reyndar smakkað verulega góða árganga af þessum rauðu Búrgúndarvínum frá þeim, sem þó hafa ekki verið send sem sýninshorn í Víngarðinn.

Þetta vín hefur meðaldjúpan og dæmigerðan lit af Pinot Noir, kirsuberjarauðan, og meðalopinn ilm af jarðarberjum, hindberjum, sætum kirsuberjum og austurlensku kryddi einsog negul og kanil. Það er svo meðalbragðmikið og þurrt með ferska sýru, fínt jafnvægi og endingu. Þarna má greina jarðarber, brómber, krækiber, kirsuber, leirkennd steinefni og fjallagrös. Rauð Búrgúndarvín eru fínleg og sýrurík og það er þetta vín svo sannarlega. Ég, persónulega, er aðeins meira fyrir rauða ávöxtinn þegar hann verður ofaná en þetta er engu að síður vel gert og dæmigert og fínt með allskonar mat. Forréttir, fuglakjöt, villibráð og jafnvel nautasteik koma öll vel til greina.

Verð kr. 3.350.- Mjög góð kaup.