Louis Jadot Combe aux Jacques Beaujolais Village 2018 fær frábæra dóma hjá Víngarðinum

Louis Jadot Combe aux Jacques Beaujolais Village 2018 ****1/2

Þótt víngerðin sem kennd er við Louis Jadot sé eftilvill þekktust fyrir vínin sem gerð eru í Gullnu Hlíðinni (Côte d’Or) þá eru einnig gerð undir hans merkjum önnur vín innan Búrgúndar-svæðisins, einsog Chablis svo dæmi sé tekið og svo einnig Beaujolais, en margir gleyma því að Beaujolais er skilgreint sem Búrgúnd innan frönsku vínlöggjafarinnar.

Louis Jadot á reyndar sjálfstæða víngerð í Beaujolais sem heitir Chateau St. Jacques og frá henni koma mögnuð rauðvín sem vonandi komast einhverntíman í sölu hér á landi. Þau eru flest svokölluð „Cru“-vín, kennd við þorpin eða svæðin í Beaujolais einsog Morgon, Moulin-á-Vent og Fleurie (svo dæmi séu tekin) eða jafnvel enn smærri víngarða. En þeir gera einnig vín sem koma frá víðara svæði og Beaujolais Village þýðir einfaldlega að vínið er upprunið innan besta svæðisins innan Beaujolais án þess að vera með upprunavottun sem kennd er við þorp eða einstakan víngarð.

Eins og öll rauðvín í Beaujolais er þetta gert úr þrúgunni Gamay sem að mínu viti er afar spennandi þrúga sem hefur möguleika á að verða að stórkostlegu víni, sé rétt farið með hana. Þótt hún hafi hlotið miður gott umtal síðustu áratugi, vegna Beaujolais-Nouveau vínanna, þá eru hin hefðbundnu rauðvín frá þessu svæði í engu lík þeim fjólubláa og nýgerða djús sem margir halda að sé eina vínið sem frá þessu svæði kemur. Þvert á móti eru þau sýrurík, fíngerð og hafa hreint ótrúlega þroskamöguleika og eru þannig í flokki með þrúgum einsog Nebbiolo, Sangiovese og Pinot Noir svo einhver dæmi séu tekin.

Þetta vín er þétt og fjólurautt að sjá með rétt ríflega meðalopinn ilm af kirsuberjum, gospillu, jarðarberjum, bláberjasultu, lyngi og rykugum steinefnum. Það er svo meðalbragðmikið með afar góða sýru, þétt en fíngerð tannín og framúrskararndi jafnvægi sem skilar því mikilli endingu. Þarna má finna kirsuber, jarðarber, bláberjasultu, krækiber, kóla, austurlensk krydd og steinefni. Alveg frábært rauðvín, létt og fínlegt einsog flest rauðvín frá Búrgúnd en hefur samt heilmiklar töggur og virkar því vel með matnum. Passar með allskonar mat, ljósu sem dökku kjöti, kæfum, forréttum og jafnvel fiski.

Verð kr. 2.895.- Frábær kaup.