Louis de Grenelle Grande Cuvée Saumur Brut fær mjög góða dóma á Víngarðinum

Louis de Grenelle Grande Cuveé Brut (án árg.) ****+

Fyrir utan sjálft kampavínshéraðið Champagne er gerður aragrúi af allskonar freyðivínum í Frakklandi. Flest þeirra eru skilgreind sem Crémant en það þýðir nokkurnvegin að þau eru gerð með hefðbundinni kampavínsaðferð (seinni gerjunin er í flösku en ekki í tank einsog td flest Prosecco og Asti-vín eru gerð) en úr þeim þrúgum sem má rækta í héraðinu. Þetta vín kemur einmitt frá Leiru-dalnum (Loire) og það er blandað úr helstu hvítu þrúgu dalsins, Chenin Blanc ásamt Chardonnay og útkoman er virkilega góð.

Það er gyllt að lit með nokkuð fínlegar loftbólur og meðalopinn ilm af sætri sítrónu, sítrónusmjöri, eplaböku, vínarbrauði, mandarínum, hunangi, flatköku, brenndu smjöri og ögn af austurlenskum ávöxtum. Það er svo nokkuð bragðmikið með frábæra sýru og mikinn og þéttan ávöxt. Þarna er sítrónubúðingur, bökuð epli, vínarbrauð, hunang, flatkaka og mjólkurfita. Virkilega skemmtilegt og bragðmikið freyðvín sem er auðvitað gott eitt og sér en er ekki síðra með forréttum og jafnvel léttum aðalrétti líka.

Verð kr. 2.950.- Frábær kaup.