Lanzaga 2012 fær frábæra dóma hjá Víngarðinum og 5 stjörnur

Lanzaga 2012 *****

Bodega Lanzaga í Rioja er í góðum höndum undradrengsins Telmo Rodrigues sem er einn af mörgum frábærum víngerðarmönnum Spánar um þessar mundir. Hann kemur nálægt fjölmörgum vínum útum allan Spán, allt frá Alicante til Valdeorras með viðkomu í Toro en þetta vín hér eitt af fjórum vínum sem hann gerir í Rioja og þegar árgangurinn er framúrskarandi einsog 2012 var þá getur maður verið nokkuð öruggur með útkomuna.

Fyrir löngu var það árgangurinn 2010 sem var hér til umfjöllunar og þótt hann hafi fengið fimm störnur þá er 2012 enn betra og mun líklegra til þess að eiga lengri og betri lífdaga. Það er sem áður aðallega úr Tempranillo en til viðbótar eru þarna Graciano og Garnacha. Það hefur mjög þéttan plómurauðan lit og rétt ríflega meðalopna angan af sultuðum blá- og aðalbláberjum, toffí, mokkasúkkulaði, þurrkuðum ávöxtum, krækiberjahlaupi, heybagga, beiskum möndlum, vanillu og kókos. Það er lengi að opnast og á þessari stundu myndi ég ekki hika við að umhella því svona einsog þremur klukkustundu fyrir neyslu.

Það er þurrt og mjög þétt í munni með afar ferska og unglega sýru, lengi að koma (og lengi að fara!) og þá birtist flauelsmjúkur og fínlegur ávöxtur með langvarandi bragð. Þarna má svo finna krækiber, sultuð bláber, sólberjahlaup, dökkt súkkulaði, toffí, kaffi, vanillu og ristaðan kókos. Hreint út sagt stórkostlegt vín á alla kanta, mikið en fínlegt, tannínríkt en mjúkt, ávaxtaríkt en þurrt og það mun batna næstu árin í kjallaranum. Góð hugmynd að kaupa kassa og taka eina á ári næstu 12 árin. Þetta er einsog öll vín frá Rioja, gert til að hafa með mat og það gengur með öllum jólamatnum nema kannski súkkulaðimolunum á eftir, en þó getur það vel verið. Ég hef bara ekki prófað það. Best með lambi, nauti, svíni og villibráð en fínt með fiskinum líka. Svo er þetta líka dæmigert íhugunarvín sem gott er að hafa í glasinu allt kvöldið!

Verð kr. 3.999.- Frábær kaup.