Herencia Altés Garnatxa Blanca 2018 fær góða dóma á Víngarðinum.

Herencia Altés Garnaxta Blanca 2018 ****+

Rétt einsog margar ævafornar vínþrúgur sem eru gjarnar á að stökkbreytast er Grenache-fjölskyldan orðin býsna fjölbreytt. Hún kallast auðvitað Garnacha á Spáni þar sem hún er upprunin (nú eða Garnaxta uppá Katalónsku) og af henni eru fjölmörg afbrigði útum allan Spán og á Miðjarðarhafsströnd Frakklands. Sú algengasta er auðvitað sú rauða, sem við þekkjum best en einnig eru til afbrgiði með sérstaklega loðin blöð (Garnacha Peluda), „grá“ útgáfa (Grenache Gris), Grenache Rosé og svo sú hvíta, Grenache Blanc eða Garnatcha Blanca uppá Spænsku, sem er þeirra útbreiddust og af henni má fá virkilega góð hvítvín, haldi vínbændur og víngerðarmenn rétt á spöðunum.

Hún getur nefnilega gefið mjög mikið magn af sér, þessi ágæta þrúga, en það kemur auðvitað verulega niður á gæðunum, svo til þess að uppskera fyrstaflokks þrúgur verða menn að eiga gamlan vínvið, halda uppskerunni í lágmarki og að rækta hana í einhverri hæð yfir sjávarmáli. Og það er einmitt raunin með hið hvíta Garnaxta Blanca frá Herencia Altés.

Ég var með dóm um hið rauða Herencia Altés Cupatge 2018 (****) núna um daginn en sjálfum finnst mér hvíta vínið vera meira spennandi og reyndar alveg ferlega gott vín á allan hátt. Þétt, margslungið og sýruríkt og passa með allskonar mat.

Það er ljós-strágult að lit með rétt ríflega meðalopna angan af perum, eplum, sítrónubúðing, perubrjóstsykri, hvítum blómum, mandarínum, læm, perujógúrt, grænum kryddgrösum og blautum steinefnum. Það er svo meðalbragðmikið og þurrt með góða sýru, þéttan ávöxt og afar fína endingu. Þarna eru sítrónur, mandarína, pera, soðin epli, jógúrt, þryddgrös og svo endar það í nánast söltum steinefnum. Verulega gott og persónulegt hvítvín frá framúrskarandi víngerð. Hafið með allskonar bragðmeiri forréttum, feitum fiski og ljósu fuglakjöti.

Verð kr. 2.550.- Frábær kaup.