Francois d'Allaines Bourgogne Pinot Noir 2018 fær frábæra dóma á Vinotek.is

Francois d’Allaines Bourgogne Pinot Noir 2018 ****1/2

Francois D‘Allaines er með vínhús sitt í þorpinu Dermigny í suðurhluta Cote-de-Beaune. Þetta er meira það sem maður myndi kalla bóndabýli en vínhús nema hvað að d‘Allaines er ekki með fjós eða fjárhús við hliðina á húsinu sínu líkt og íslenskir bændur heldur litla víngerð og vínkjallara. Allaine hefur framleitt vín frá 1996 og hefur byggt upp góð sambönd við bændur á svæðinu sem hann kaupir þrúgur af. Þetta litla vínhús hefur byggt upp traust orðspor fyrir vönduð vín sem draga vel fram karaktereinkenni suðurhluta Búrgundarsvæðisins. Við heimsóttum Francois d’Allaines á sínum tíma og má lesa nánar um þessa sjarmerandi víngerð hér.

Þetta er bjartur og ferskur Pinot Noir, liturinn fagurrauður, í nefinu skógarber, jarðarber, rósir og jörð, eikin er mild og sæt, í munni skörp og fínleg tannín og góð sýra, mýkist þegar fær að standa, vel balanserað og gert vín.

3.550 krónur. Frábær kaup fyrir Búrgundarvín á þessu verði.