Fonterutoli Chianti Classico 2012 fær frábæra dóma hjá Víngarðinum

Fonterutoli Chianti Classico 2012 ****1/2

Ég skrifaði í fyrra um árganginn 2011 (****) af þessu sama víni og eins hef ég skrifað um Badiola 2012 (****) og Castello di Fonterutoli (eina vínið sem fékk fullt hús stiga hjá mér á síðasta ári) frá sömu víngerð.Árgangurinn 2012 er að mínu viti enn betri og fínlegri en árgangurinn 2011 var í fyrra en til að gæta fyllstu sanngirni þá eru þetta vín sem hafa langan líftíma og geta hæglega bætt við sig hinum og þessum víddum á nokkrum mánuðum svo það væri gaman að dæma árganginn 2011 aftur núna.

Þetta vín hefur dimm-fjólurauðan lit og meðalopna angan sem er þétt, dökk yfirlitum og ungleg en þarna eru áberandi eik, sultuð rauð og dökk ber, leður, lakkrís, læknastofa (og ég er ekki frá því að þarna slæðist inn linoleumgólfdúkur), kirsuber, Mon Chéri-molar og balsam.

Í munni er það vel bragðmikið, þétt, þurrt, dimmt og unglegt með töluverða sýru og mikil mjúk tannín sem tryggir mikla endingu (og líftíma í flösku). Það hefur glefsur af krækiberjasultu, kirsuberjum, lakkrís, súkkulaði, vanillu, plómu, balsam og þurrkuðum appelsínuberki. Þrátt fyrir stærðina er það fínlegt og fágað og þarna er maður að fá mikið fyrir aurana. Hafið með bragðmeiri og fínni steikum, nauti og lambi. Grilluð hrossalund og þetta hérna er ekkert slor, skal ég segja ykkur.

Verð kr. 3.495.- Frábær kaup.