Fimm stjörnu dómur um Barahonda Summum 2017 á Víngarðinum.

Barahonda Summum 2017 *****

Þeir sem hafa orðið sér útum Barahonda Organic Barrica 2017 (****+) hafa eftilvill rekist á stóra vínið frá þessari frábæru víngerð sem kallast Summum og vonandi hafa einhverjir reynt það nú þegar, því þar er á ferðinni alveg hreint framúrskarandi og persónulegt rauðvín.

Einsog ég minntist á þegar ég skrifaði um Organic Barrica-vínið þá er víngerðin Barahonda staðsett í héraðinu Yecla sem er ríflega eitthundrað kílómetra norðvestur af bænum Alicante og það sem einkennir landslagið þarna er þunnt lag af leirkenndu, og sendnum jarðvegi yfir þéttum kalkstein. Og það er einmitt þessi kalksteinn sem stendur uppúr í hæstu víngörðunum (þeir eru í um 700 metra hæð yfir sjávarmáli) og þaðan koma fínlegustu, sýruríkustu og bestu þrúgurnar í Yecla. Þetta vín inniheldur einmitt slíkar þrúgur.

Það er að öllu leiti úr þrúgunni Monastrell, helstu einkennisþrúgu svæðisins (sem við þekkjum líka sem Mourvédre) og vínviðurinn er ekki bara í mikilli hæð, hann er líka gamall og eftir gerjun er þetta vín þroskað í 16 mánuði í bandarískum eikartunnum svo útkoman er þétt, flókin og mikil en um leið fíngerð og matarvæn.

Það hefur ríflega meðaldjúpan, kirsuberjarauðan lit og nokkuð opna angan af rauðum berjum, líkjörskenndum kirsuberjum, plómum, negul, dökku súkkulaði. þurrkuðum ávöxtum, rykugum steinefnum og kremuðum vanillutónum. Það er svo bragðmikið, þurrt og þétt með frísklega og góða sýru og langan og kryddaðan keim. Þarna eru Mon Chéri-molar, plómur, rauð ber, þurrkaðir ávextir, kakó, krækiberjasulta, negull og vanilla. Dásamlegt og gómsætt vín sem er, þrátt fyrir stærðina, fínlegt og matarvænt og er best með flottum nautasteikum, lambi og villibráð. Fullt hús af stjörnum og vel þess virði!

Verð kr. 3.995.- Frábær kaup.