Envinate Albahra 2017 fær frábæra dóma á Víngarðinum

Albahra 2017 ****1/2

Undanfarin ár hefur víngerðarteymið sem kallar sig Envínate fengið mikla athygli á Spáni og nú útum allan heim. Víngerðarteymi er betra að kalla þau heldur en víngerð því þetta er hópur sex fyrrum samnemenda sem ákvaðu fyrir nokkrum árum að gera vín ferkar en að eignast víngerðir og nú gera þau vín vítt og breytt um Spán og oft á svæðum sem hafa ekki hlotið mikla athygli. Um þessar mundir eru frægustu vín þeirra gerð á Kanaríeyjum og eru þau svo eftirsótt að varla er hægt að finna gler af þeim nema á dýrustu og bestu veitingahúsum Spánar og Bandaríkjanna. Þetta vín kemur einmitt frá skilgreindu víngerðarsvæði sem fáir hafa heyrt nefnt, Almansa sem er norður og lítillega í vestur af hinum vinsæla dvalarstað Alicante á suðurströnd Spánar. Þarna í Almansa gætir þó ekki heitrar og rakrar sjávargolu heldur er þarna heitt og þurrt og vínin eru sérstæð.

Einsog ég nefndi þá eiga sexmenningarnir ekki vínekrur en hafa gert langtímaleigusamninga við eigendurna og sjá þau algerlega um víngarðana og víngerðina. Þeirra sérstaða er að nota upprunalegar og staðbundnar þrúgur og í þessu víni eru það Garnacha Tintorera (sem einnig heitir Alicante Bouschet) og svo Moravia Agria sem er svo staðbundin og lítið útbreidd að ég hafði sjálfur ekki heyrt hana á nafn fyrr en ég bragðaði þetta vín. Og vínið er magnað.

Það hefur meðaldjúpan en þéttan og fjólurauðan lit og meðalopna angan þar sem blandast saman kirsuber, hindber, lakkrískonfekt, steinefni, Miðjarðarhafs-kryddjurtir einosg rósmarín og sítrus eða sítrónumelissa (sem er ekki algengur ilmur í rauðvíni þótt maður finni hann vissulega í hvítvíni). Það er svo ríflega meðalbragðmikið í munni, sýruríkt og mjög þurrt og hefur einstaka lengd sem telja má í mínútum. Það hefur þétta en mjúka tanníngrind og þarna má finna kirsuber, hindber, krækiber, lakkrís, steinefni og kryddjurtir. Alveg hreint framúrskarandi vín, ólíkt flestu því sem þið hafið smakkað og tilheyrir þeim flokki vína þar sem ferskleikinn og fínleikinn fara saman. Svipað og vín úr Nebbiolo, Pinot Noir, Mencia og Nerello. Frábært matarvín sem ræður við allskyns mat, bæði kjöt og fisk og þolir töluverð krydd. Einnig íhugunarvín fyrir vínnörda sem njóta þess að smakka eitthvað sem þeir hafa ekki smakkað áður.

Verð kr. 3.380.- Frábær kaup.