Dr. Loosen Wehlener Sonnenuhr Trocken GG 2015 fær 5 stjörnur hjá Víngarðinum

Dr. Loosen Wehlener Sonnenuhr Riesling Großes Gewächs Dry 2015 *****

Ég segi fyrir mig, þá er Riesling ein af þremur bestu hvítvínsþrúgum sem þessi veröld hefur töfrað fram í gegnum aldirnar. Og þrátt fyrir að hún sé ræktuð útum allan heim með ágætum árangri er heimavöllur hennar Þýskaland þar sem gæði hennar verða mest og vínin sem úr þessari þrúgu fást geta verið einhver stórkostlegustu hvítvín þessa heims.

Hana má finna í allskyns útgáfum og margir þekkja hana í hálfsætum og töfrandi Kabinett-vínum frá vesturhluta Þýskalands og þá aðallega við árnar Rín og Mosel. Færri þekkja sætu Spätlese-, Auslese-, Beerenauslese- og Eiswein-vínin úr henni enda eru þau flest seld og drukkin af heimamönnum Þýðverskum. Á undanförnum árum (með hlýnandi loftslagi og breyttum smekk) þá hafa þýsku Rieslin-vínin svo í auknum mæli verið gerð þurr og alkóhólríkari (nær vínstílnum sem við þekkjum í Alsace) án þess þó að glata ferskleika sínum og núna má finna allskonar Riesling-vín í Þýskalandi, þurr og mikil og létt og fínleg og sennilega hafa þau aldrei verið betri en akkúrat núna.

Dr. Loosen ætti að vera öllum kunnur fyrir frábær vín sem hafa fengist hérna í gegnum tíðina og þetta hér, er einmitt eitt af hans betri, Großes Gewächs Riesling frá víngarðinum Sonnenuhr í þorpinu Wehlen í miðjum Móseldalnum. Þetta Großes Gewächs er reyndar hugtak sem hefur ekki sést neitt að ráði hérna heima en það er tiltölulega nýtt í þýskri vínlöggjöf. Það er best að útskýra það sem samsvarandi hugtak við Grand Cru í Frakklandi og þessa skilgreiningu má nota við þurr VDP-vín (VDP eru samtök bestu hvítvínsframleiðanda Þýskalands) frá bestu víngörðunum. Og þetta vín er einmitt eitt slíkt.

Það er strágyllt að lit með meðalopna angan af hvítum blómum, sítrónubúðing, verbena, fresíum, vínberjum, steinaávöxtum, ananas og eplaböku. Þetta er silkimjúk og örlítið búttuð angan, afar sumarleg og sætkennd.

Í munni er það hinsvegar þurrt og sýruríkt með fínlega og afar langa endingu. Þarna má finna sítrónu, verbena, ananas, steinaávexti, eplaböku, og mjúk steinefni. Þetta er flókið og fínlegt vín, afar lifandi og langvarandi þar sem hvert bragðið kemur á fætur öðru. Það er samt sem áður matarvænt, hefur heilmiklar töggur og þetta er vín sem ég get lofað að lifir og þroskast næstu tuttugu árin. Einstakt vín. Hafið með allskonar bragðmeiri forréttum, asískum mat, ljósu kjöti, feitum fiski og svo er það einnig íhugunarvín, svona eitt og sér. Ótrúlegt að hugsa til þess að meðan vínsnobbarar láta selja sér mun dýrari þorpsvín frá Búrgund þá hreyfist þetta vín varla í hillum vínbúðanna. Þetta hér er nebbnilega á pari við Grand Cru.

Verð kr. 3.995.- Frábær kaup.