Dr. Loosen Wehlener Sonnenuhr Kabinett 2013 fær góða dóma hjá Víngarðinum

Dr. Loosen Wehlener Sonnenuhr Riesling Kabinett 2013 ****

Sólúrs-vínekran í Wehlen er ein af þessum framúrskarandi góðu í Móseldalnum þar sem Riesling-þrúgan gefur af sér einhver bestu hvítu vín jarðarkringlunnar og í höndunum á jafn góðum víngerðarmanni og Ernst Loosen má alltaf búast við frábærri flösku.

Þetta vín er gulgrænt að lit og inniheldur vott af kolsýru (sem dregur síður en svo úr gæðum þess). Í nefinu sem er unglegt og meðalopið má finna vínber (!), sítrónu, læm, koppafeiti, rykuga jörð, hvít blóm og grænar kryddjurtir.Í munni er það hálfþurrt, með töluverða sýru (og kolsýru að auki), er ferskt og líflegt með þennan óviðjafnanlega þokka sem einkennir Riesling frá góðum svæðum. Það má greina í því epli, sítrónu, vínber, jörð og rautt greipaldin. Langlíft og glæsilegt vín sem vantar bara einn punkt að fá hálfa stjörnu í viðbót. Gott eitt og sér og með allskyns fiskmeti, reyktum fiski og jafnvel asískum brögðum. Fjölhæft og glæsilegt vín.Verð kr. 2.959.- Mjög góð kaup.