Dr. Loosen Erdener Treppchen Riesling Kabinett 2015 fær mjög góða dóma á Vinotek.is

Dr. Loosen Erdener Treppchen Riesling Kabinett Trocken 2015

Nöfn þýskra vína geta orðið ansi löng og vígaleg og það á við hér. Vínið er frá einum af bestu framleiðendum Þýskalands, Ernst Loosen í Móseldalnum og kemur af Treppchen-ekrunni við þorpið Erden. Treppchen mætti þýða sem litlu tröppurnar en ekran er mjög brött eins og oft vill verða í bröttum hlíðunum upp af Mósel og voru á öldum áður útbúnar tröppur til að hægt væri að komast að vínviðnum. Jarðvegurinn í Edener Treppchen einkennist af dökku, rauðleitu og járnríku hellubergi sem gefur vínunum mikinn kraft.

Vínið er ljóst, ungt með ríkulegu magni af sítrus í nefi, sætur greip og limeávöxtur í bland við ferskjur og ástaraldin og ferskar kryddjurtir. Í munni þykkt, ferskt, sætur og gómsætur ávöxturinn blandast þar krydduðu biti og míneralískri festu. Fyrirmyndarvín.

2.595 krónur. Frábær kaup. Eitt og sér eða með til dæmis krydduðum austurlenskum mat.