Dr. L Riesling Dry 2014 fær frábæra dóma hjá Víngarðinum

Dr. L Dry Riesling 2014 ****

Ernest Loosen er einn af merkilegri víngerðarmönnum Moseldalsins og ég þreytist ekki á að benda ykkur á að vera duglegri við að smakka betri þýsk Riesling-vín. Frá honum koma perlur einsog Villa Wolf og Dr. Loosen (hvít og rauð, gleymum ekki hinu frábæra Villa Wolf Pinot Noir) en þetta er „nýtt“ vín, þurr Riesling frá Mosel en meira í áttina að Alsace þótt hinn hreini og hárbeitti Mosel-stíll skíni fagurlega í gegn.

Það hefur ljósan, strágulan lit með grænni slikju og örlitla kolsýru sem lyftir því enn meira upp. Nefið er meðalopið, dæmigert og alveg einstaklega hreint og fagurt. Þarna má finna vínber, sæta sítrónu, epli, ferskju, hvít blóm, nektarínu, austurlenska ávexti og strokleður.

Það er þurrt og meðalbragðmikið með afar góða sýru og kolsýran kitlar mann hæfilega mikið án þess að verða nokkurntímann áberandi. Það býr yfir djúpum og hreinum ávexti, frábærri bygginu og merkilega mikilli endingu. Þarna eru sítróna, epli, nektarína, pera og greipaldin. Ferskt, dæmigert og svo dásamlega hreint svo manni finnst að maður geti hæglega drukkið heila flösku (þótt landlæknir og ég sjálfur mæli kannski ekki endilega með því) án þess að finna fyrir því. Endilega farið nú og prófið þessa dásemd og hafið með flottum fiskréttum, austurlenskum mat (samt ekki of mikið af hvítlauk eða engifer) og ljósu kjöti.

Verð kr. 2.295.- Frábær kaup.