Chapoutier Belleruche Cotes du Rhone 2017 fær frábæra dóma á Víngarðinum

Chapoutier Belleruche Côtes du Rhône 2017 ****1/2

Enn á ný er hérna dómur um Côtes du Rhône-vínið frá Chapoutier en þetta er í fjórða skiptið sem það kemur inn á borð Víngarðsins. Það var helst árgangurinn 2013 sem ekki var að gera mikið fyrir mig en núna síðast var það árgangurinn 2016 sem fékk fjórar plús og þá var ég viss um að varla yrði lengra komist með ekki flóknara vín. Þar hafði ég auðvitað rangt fyrir mér einsog vanalega því árgangurinn 2017 er enn betri og fer að slaga uppí bestu Rónar-ekrurnar einsog Gigondas og Cairanne.

Það er að venju að mestu leiti úr þrúgunum Grenache og Syrah að það hefur fjólurauðan, meðaldjúpan lit. Það er meðalopið í nefinu, ungt og ferskt með angan sem minnir á kirsuber, hindber, rifsber, sultuð krækiber, brómber, dökkt súkkulaði, lakkrís, lyng, kryddjurtir og steinefni. Það er svo ríflega meðalbragðmikið í munni með góða sýru og mjúk tannín. Það er ennþá ungt og mun án nokkurs vafa verða enn betra á næstu mánuðum. Þarna má svo greina rauð skógarber, sultuð kræki- og brómber, plómur, lakkrís, kakó, þurrkaðan appelsínubörk og rykug steinefni. Það hefur frábært jafnvægi og óvenju mikla lengd og er bæði í senn aðgengilegt og mikið. Þetta er vín með góðum grillmat, rauðu kjöti, fínum og hægelduðum pottréttum, norður-afrískum mat og bragðmeiri villibráð. Einhver bestu kaup sem þið getið gert þessa dagana.

Verð kr. 2.499.- Frábær kaup.