Chapoutier Belleruche Cotes du Rhone 2016 fær mjög góða dóma hjá Víngarðinum

M. Chapoutier Belleruche Côtes-du-Rhône 2016 ****+

Ég bind töluverðar vonir við að hin frábæra víngerð Michel Chapoutier sé að vinna sér traustan sess á meðal íslenskra neytenda, enda eru vínin frá þessari framsæknu og merkilegu víngerð afar vel gerð og matarvæn. Þótt enn hafi ekki sést hérna vínin Hermitage eða St. Joseph (svo einhver dæmi séu tekin af þeirra bestu vínum) eru þau sem í boði eru, hverju öðru betra. Gott dæmi um það er þetta hér, Belleruche Côtes-du-Rhône sem eflist með hverjum árgang.

Til upprifjunnar má nefna að árgangurinn 2011 fékk hér fjórar stjörnur og árgangurinn 2013 fékk þrjár og hálfa (2012 fékk ekki dóm en var nánast jafn góður og 2016) . Nú er árgangurinn 2016 kominn í hillur og hann er hreint út sagt frábær. Sennilega sá besti af þeim sem ég hef bragðað.

Þetta vín er auðvitað upprunið í Rónar-dalnum og blandað úr þrúgunum Grenache og Syrah. Það hefur meðaldjúpan, rúbínrauðan lit og meðalopna angan af rauðum, sultuðum berjum, dökkum berjum, austurlensku kryddi, pipar, lakkrís og rykugum steinefnum. Það er þurrt og sýruríkt í munni, nokkuð bragðmikið og hefur þétt en fínkornótt tannín. Þarna má greina rauð ber (td jarðarber), bróm- og krækiber, timjan, rósmarín, negul, pipar, balsam, kaffi og lakkrís. Virkilega mikið um sig af svona hversdagslegu víni að vera og fer vel með allskonar bragðmeiri kjötréttum, hægelduðum pottréttum og pasta. Alhliða vín.

Verð kr. 2.499.- Frábær kaup.