Cerro Anon Gran Reserva 2011 fær toppdóma á Víngarðinum.

Cerro Añon Gran Reserva 2011 ****1/2

Það er alveg mögulegt að Gran Reservur muni einn daginn heyra sögunni til, svona miðað við að fleiri og fleiri víngerðir (núna þegar þriðji áratugur 21. aldarinnar er að ganga í garð) kjósa að færa framleiðslu sína til nútímans og þá er gamaldags stíll einsog Gran Reserva ekki efst á forgangslistanum. Bæði er kostnaðurinn mun meiri við að gera Gran Reservur og svo er eftirspurnin eftir sprikklandi ungum og sætkenndum vínum sem hafa verið þroskuð í nýjum frönskum eikartunnum, mun meiri. En, sem betur fer, þá eru enn nokkrir framleiðendur sem halda gömlum víngerðarstílum í heiðri og einn af þeim er Bodegas Olarra. Besta vínið sem frá þeim kemur er þetta, Cerro Añon Gran Reserva sem hægt er að versla hérna og er sennilega einhver best prísaða Gran Reserva sem hægt er að fá núna, miðað við gæði.

Einsog hefðbundið er í Rioja er þetta vín blandað úr þremur þrúgum (vínin í nútímastílnum eru með fáum undantekningum 100% Tempranillo) því auk Tempranillo eru þarna Graciano og Mazuelo. Árgangurinn 2011 hefur lengi verið talinn einn sá besti og því er fengur af þessu víni á íslenska markaðinn. Það hefur dimm-fjólurauðan lit og ríflega meðalopna angan sem er flókin og margbreytileg. Þarna má meða annars rekast á kirsuber, hindber, sultuð skógarber, dökkt súkkulaði, þurrkaðan appelsínubörk, balsam, kókos, kryddbrauð, vanilluskyr, þurrkaða ávexti og kaffi. Eikin er vissulega framarlega en hún er vel ofinn inní ávöxtinn og flýtur ekki ofaná einsog títt er um nútímavín sem hefur verið dúndrað í nýjar eikartunnur og þurfa þverfaglega áfallastreytumeðferð til að hægt sé að drekka þau.

Það er svo rétt ríflega meðalbragðmikið, þurrt, sýruríkt og þétt með talsvert magn af póleruðum tannínum sem skilar langvarandi og fínlegum prófíl. Þarna er gamli Rioja-stíllinn uppá sitt besta og við megum eiga von á að finna kirsuber, hindber, sultuð krækiber, þurrkaðan appelsínubörk, Bounty, balsam, kaffi og rykug steinefni. Verulega flott og fínleg Gran Reserva sem munar engu að fái fullt hús og á þessu verði hlýtur það að teljast með því besta sem í boði er. Hafið það með lambi, nauti eða krónhirti.

Verð kr. 3.550.- Frábær kaup.