Calmel & Joseph Villa Blanche Chardonnay 2014 fær frábæra dóma hjá Þorra Hrings á Víngarðinum

Calmel & Joseph Villa Blanche Chardonnay 2014 ****1/2

Þessi Chardonnay frá Languedoc kom mér skemmtilega á óvart þótt hann eigi fátt sameiginlegt með forsetaembætti Bandaríkjanna nema kannski nafnið, en Villa Blanche þýðir auðvitað Hvíta Húsið. Ég hef nú þegar skrifað um þrjú rauðvín frá þeim kumpánum Calmel og Joseph (öll ****) en þetta finnst mér bera af þeim og þótt sumir þykist vera orðnir leiðir á Chardonnay þá ættu allir að prófa þetta vín, þótt ekki væri nema til að átta sig á að þessi þrúga er sannarlega í efstu fimm sætunum yfir bestu hvítu þrúgur veraldarinnar. Sama hvaðan hún kemur.

Það hefur ljós-gylltan lit og rétt meðalopna angan af hvítum blómum, nektarínu, peru, soðnu epli, grænum kryddjurtum, sætri sítrónu, hunangsmelónu, ananas, perubrjóstsykri og smá agúrku.

Í munni er það ferskt, þurrt og ávaxtaríkt, með frísklega sýru, fínasta jafnvægi og endist afar vel. Það hefur mjúkt fitulag í kringum miðjuna sem gerir það afar girnilegt en þarna er sítróna, pera, hunang, smjör, rautt greipaldin, mandarína, melóna og steinefni. Virkilega ljúffengt og matarvænt hvítvín sem er gott með bragðmeiri og feitari fiskréttum, ljósu fuglakjöti, humri og svo er það frábært eitt og sér.

Verð kr. 2.499.- Frábær kaup.