Umfjöllun um Muriel Reserve 2008 á Víngarðinum.

Bodegas Muriel Vendemia Seleccionada Reserva 2008 ****1/2

Enn á ný fjalla ég um eitt af þessum frábæru rauðvínum frá Rioja og ég verð bara að segja að við lifum góða tíma nú, að hafa aðgang að öllum þessu framúrskarandi flöskum sem okkur standa til boða. Reynið þau öll!

Þetta er meðaldjúpt vín að sjá, með þroskaðan rúbínrauðan lit og spennandi angan þar sem eikin er áberandi (einsog nærri má geta, vínið er þroskað í tunnum í tvö ár) en að auki má þar finna vanillu, rauð ber, toffí, balsam, brenndan sykur, sveskjur og sultuð bláber. Þetta er margslunginn og nokkuð opinn ilmur, dæmigerður fyrir upprunann og aðlaðandi fyrir byrjendur sem og lengra komna.

Í munni er það mjúkt en bragðmikið í frábæru jafnvægi, með góða lengd og glæsileika einsog sönnu hefðarvíni ber. Það er þurrt og með ferska sýru og töluverð fínkorna tannín úr tunnu og hýði og virkar ungt þrátt fyrir ríflega sex ára þroska. Þarna má finna rauð, sultuð ber, krækiber, sveskju, balsam og vanillu. Hafið með betri kjötréttum og ekki of flóknum. Lamb, naut og folald.

Verð kr. 2.960.- Frábær kaup.