Barahonda Organic Barrica 2017 fær mjög góða dóma á Víngarðinum

Barahonda Organic Barrica 2017 ****+

Eitt af þeim skilgreindu víngerðarsvæðum á Spáni sem lítið hefur farið fyrir hérna á Íslandi er Yecla, og kannski ekki furða, því það er fjarri því að vera stórt að flatarmáli og fá starfandi víngerðarhús (Consejo Regulador telur einungis upp 8 víngerðarhús og tæplega 500 ræktendur). Þarna inn til landsins (Yecla er norð-norðvestur af Alicante til að auðvelda Íslendingum að staðsetja svæðið) er heitt og þurrt og mest er ræktað af þrúgunni Monastrell sem við þekkjum einnig undir nafninu Mourvédre, en fyrr á öldum fluttist þessi þrúga frá Valensíu á Spáni meðfram strönd Miðjarðarhafsins og alla leið til Frakklands þar sem hún er einnig mikið ræktuð í dag.

Þetta lífræna vín frá Víngerðinni Bodegas Barahonda er einmitt að stærstum hluta til úr þrúgunni Monastrell en að auki er þarna hin franska þrúga Syrah og vínið er þroskað í nokkra mánuði í eikartunnum sem skilar sér í afar blíðu og ljúffengu víni. Það býr yfir ríflega meðaldjúpum rauðfjólubláum lit og hefur meðalopinn ilm af kirsuberjum, austurlenskum kryddum einsog negul og kanil, hindberjum, marsipan, lakkrískonfekti, þurrkuðum ávöxtum, plómum, leirkenndri jörð og eik. Þetta vín hefur sætkenndan og aðlaðandi undirtón og er býsna margslungið af ekki flóknara víni að vera.

Það er svo ríflega meðalbragðmikið með mjúk tannín og afar frískandi sýru á móti þessum sólþroskaða ávexti svo jafnvægið og lengdin eru sérlega góð. Þarna má finna sprittlegin kirsuber, lakkrískonfekt, marsipan, negul, kanil, þurrkaða ávexti, pipar, krækiberjasultu og steinefni. Virkilega flott og neytendavænt rauðvín sem ég mæli með að þið verðið ykkur útum og ég veit að þið munuð heillast af því rétt einsog ég. Prófið það með bragðmeiri mat, hægeldaðir pottréttir eru frábærir með því, grillmatur og flottir svínakjötsréttir.

Verð kr. 2.650.- Frábær kaup.