Barahonda Organic Barrica 2017 fær frábæra dóma á Vinotek.is

Barahonda Organic Barrica Monastrell Syrah 2017 ****1/2

Við fjölluðum á dögunum um hið frábæra Summum frá vínhúsinu Barahonda í Yecla, sem er víngerðarsvæði í Murcia sem er að finna tæplega hundrað kílómetra vestur af Alicante. Þetta er þurrt og heitt svæði, aðstæður sem henta þrúgum á borð við Monastrell (sem sumir þekkja undir franska heitinu Mourvédre) afskaplega vel. Í víninu Organic Barrica er henni blandað saman við Syrah en Barrica er spænska heitið yfir litlar (225 lítra) eikartunnur sem vínið hefur verið geymt í fyrir átöppun.

Þetta er sjarmerandi vín, liturinn er dökkur, út í fjólublátt, það eru dökk ber í nefi, þroskuð kirsuber, ávöxturinn kryddaður, þarna má greina súkkulaði, kanilstöng og lakkrís. Ferskt og ungt, tannín mjúk, vel uppbyggt matarvín.

2.650 krónur. Frábær kaup, kröftugt vín sem þolir vel kröftuga rétti.